Sveitarfélagið Árborg skrifaði í dag undir kaupsamning að tæplega 200 hektara landi úr Laugardælum í Flóahreppi, austan við Selfoss.
Kaupverðið er 288 milljónir króna en seljandinn er Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga. Landsvæðið er frá lóð Mjólkurbús Flóamanna, uppmeð Ölfusá langleiðina upp að Laugardælavatni og í suður í átt að Uppsölum og Sölvholti. Inni á landsvæðinu er núverandi golfvöllur Golfklúbbs Selfoss.
„Í dag erum við að láta langþráðan draum margra rætast um það að sveitarfélagið eignist þetta land. Landið liggur að tveimur mikilvægum æðum hér, annars vegar Ölfusá og hins vegar Suðurlandsvegi. Þetta er landið inn í framtíðina,“ sagði Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, meðal annars við þetta tilefni.
„Þessar tvær kvíslar eru bæði umhverfislega, félagslega og skipulagslega gríðarlega mikilvægar fyrir Selfoss. Þetta er góður tímapunktur til að ráðast í þessi kaup. Á uppgangstímum verður verð á svona jörðum alltof hátt og menn töldu það að hér hefði tapast tækifæri fyrir nokkuð löngu síðan þegar sveitarfélagið gat keypt þetta og við teljum að nú sé sveitarfélagið að endurheimta þetta tækifæri og við séum eðlilegur kaupandi, frekar en einkaaðilar sem ætla að kaupa mikið og kreista allt út út byggingarreitum,“ bætti Eyþór við.
Jón G. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, segir að það sé ekki markmið lífeyrissjóða að eiga land þannig að sjóðurinn hafi fyrst og fremst horft til þess að að sveitarfélagið hefði áhuga á að kaupa.
„Þetta er land sem lífeyrissjóðurinn eignaðist á uppboði, sjóðurinn var ekki að sækjast eftir því að verða landeigandi. Þetta er hluti af sorgarsögu íslensk fjármálaheims á árunum fyrir hrun. Það var fyrirtæki sem fjárfesti í okkar nafni og keyptu skuldabréf með veði í þessu landi og það fór allt í vanskil og á uppboð. Við töldum okkar hag best borgið að eignast landið á uppboði,“ sagði Jón G.
Með kaupunum er Golfklúbbur Selfoss kominn með framtíðarsvæði til uppbyggingar en klúbburinn er í dag á um 10% hluta þess lands sem sveitarfélagið er að kaupa. Svarfhólsvöllur er í dag 9 holu völlur en til stendur að stækka hann með tíð og tíma í 18 holur en nýr Suðurlandsvegur mun væntanlega fara yfir vestasta hluta núverandi vallarsvæðis og því verður uppbygging vallarins upp með Ölfusá.
Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS, sagði í samtali við sunnlenska.is að þetta væri stærsti dagurinn í sögu Golfklúbbs Selfoss. „Saga GOS á heima í einhverri mjög skrítinni bók, klúbburinn er búinn að vera á hrakhólum nánast frá upphafi og mig langar til að þakka bæjarstjórninni til þess að hafa kjark til þess að klára þetta mál. Við bindum vonir við að byggja hérna upp framtíðarsvæði sem verður ekki bara golfvöllur heldur einnig líflegt útivistarsvæði fyrir bæjarbúa.“
Landið sem Árborg kaupir eru á gráum flötum á þessari mynd.