Árborg opnar ábendingagátt

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg hefur tekið í notkun ábendingagátt fyrir íbúa og er hún aðgengileg frá vef sveitarfélagsins, arborg.is.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Hafnarfjörð sem einnig hefur tekið sína gátt í notkun.

Að sögn Sigríðar Magneu Björgvinsdóttur, deildarstjóra upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Árborg, er tilgangurinn með ábendingagáttinni að bæta þjónustu við íbúa og setja upp skýran feril fyrir ábendingar sem áður bárust með tölvupósti og gegnum síma.

Þjónustuver Árborgar hefur frá því í janúar, unnið að undirbúningi og prófunum á kerfinu í samvinnu við upplýsingatæknideild Árborgar og þjónustuver Hafnarfjarðar.

Fleiri tækninýjungar hafa verið teknar í gagnið hjá sveitarfélaginu að undanförnu en Bókasafn Árborgar hefur tekið upp stafræn bókasafnskort sem hægt er að geyma í veskisappi snjallsíma. Hægt er að endurnýja bókasafnskortin í snjallsíma en það skal tekið fram að eldri kort gilda líkt og áður auk stafrænu kortanna.

Fyrri greinÆgir komst ekki á blað
Næsta greinFresía flutt á nýjan stað