Á síðasta ári stóð Knattspyrnufélag Árborgar fyrir söfnun á Lay-z-boy stól fyrir Kotið, sem er frístundaheimili fyrir fötluð börn á Selfossi.
Markmið söfnunarinnar var að auka lífsgæði og þægindi krakkanna í Kotinu, en Kotið er fyrir grunnskólanemendur í 5.-1. bekk.
Sú söfnun gekk alveg frábærlega en knattspyrnufélagið keypti glæsilegan Lay-z-boy stól frá Húsgagnahöllinni fyrir söfnunarfjárhæðina.
Þar sem söfnunin gekk vel og stóllinn vakti lukku fannst forsvarsmönnum félagsins tilvalið að halda áfram að gefa til samfélagsins með því að hrinda af stað nýrri söfnun.
Í ár verður safnað fyrir sjónvarpi fyrir skammtímavistunina í Álftarima 2.
Skammtímavistunin léttir álagi af fjölskyldum fatlaðra barna, ungmenna og fullorðinna sem búa í heimahúsum. Þar er áhersla lögð á eflingu athafna daglegs lífs og félagsfærni, auka lífsgæði og sjálfstæði þeirra sem þar eru.
Hluti af því er að hjálpa til við nýjustu tækni í sjónvarpsmálum því þau verða flóknari með hverju árinu.
Söfnunin fer fram í góðgerðarsjoppunni á heimaleikjum Árborgar og vonast knattspyrnumennirnir til þess að fólk fjölmenni á völlinn og leggi sitt af mörkum í þetta góða málefni. Það er nú einu sinni þannig að sælla er að gefa en þiggja.
Góðgerðarsjoppan opnar í kvöld þegar Árborg tekur á móti Mídasi á Selfossvelli kl. 20:00, og verður opin á öllum heimaleikjum hér eftir.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning 586-26-500101, kt. 500101-2610.