Árborg segir sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti í dag úrsögn úr Skólaskrifstofu Suðurlands og hyggst þess í stað efla sérfræðiþjónustu í sveitarfélaginu og bæta við allt að þremur stöðugildum á fræðslusviði.

Málið hefur átt sér langan aðdraganda og valdið titringi innan bæjarstjórnarinnar en ákvörðunin er tekin í kjölfar úttektar og tillögugerðar sem unnin hefur verið á undanförnum átta mánuðum. Samþykktin í dag byggir á þeirri vinnu.

Í tilkynningu frá Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, segir að þjónusta fræðslusviðs verður stórefld frá því sem verið hefur og sett í gang verkefni til samræmingar leikskóla- og grunnaskólastigsins annars vegar og grunnskóla- og framhaldsskólastigsins hins vegar.

Forvarnarstarf verður stóraukið þar sem unnið verður með skólunum og forvarnarfulltrúum. Hér er um nýmæli að ræða. Þá hefur verið stofnaður tíu manna faghópur leikskóla og grunnskóla til eflingar faglegs samstarfs milli leikskóla og grunnskóla í Árborg.

Einnig er unnið að undirbúningi að „Framhaldsskóla barnanna“ sem er samstarfsverkefni Fjölbrautarskóla Suðurlands, grunnskólanna í Árborg og fræðslusviðs. Stefnt er að því að hrinda verkefninu í framkvæmd næsta sumar.

“Með þessum breytingum er verið að svara kalli tímans um eflingu skólastarfs og bættri samræmingu skólastiga með nemandann sjálfan í brennidepli. Rík og vaxandi krafa er um eflingu skólastarfs og eru þetta mikilvæg skref í átt að gera skólana í Árborg enn betri með markvissum aðgerðum og eflingu innviða,” segir í tilkynningunni frá framkvæmdastjóranum.

Fyrri greinEggert Valur: Skipulagsmál í Sveitarfélaginu Árborg
Næsta greinFjögur bókasöfn á Suðurlandi í samstarfi