Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum fyrr í mánuðinum kauptilboð í þrjár iðnaðarlóðir við Víkurheiði á Selfossi.
Átta lóðir voru auglýstar til sölu og bárust kauptilboð í þrjár þeirra og reyndust þau öll vera yfir lágmarksverði sveitarfélagsins.
Pro garðar ehf bauð rétt rúmar 17,5 milljónir króna í Víkurheiði 19, sem var 17% yfir lágmarksverði sveitarfélagins. Táta ehf bauð 21 milljón króna í Víkurheiði 21, sem var 5% yfir lágmarksverði sveitarfélagsins og Akrasel ehf bauð tæpar 25,2 milljónir í Víkurheiði 22, sem var 16% yfir lágmarksverði sveitarfélagsins.
Á fundi bæjarráðs var sviðstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs falið að semja við hæstbjóðanda hverrar lóðar.
Byggingaréttur fyrir lóðir númer 3, 5, 13, 18 og 20 við Víkurheiði er áfram til sölu hjá sveitarfélaginu.