Árborg semur við Motus

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að ganga að tilboði frá innheimtufyrirtækinu Motus í milliinnheimtu fyrir sveitarfélagið.

Meirihlutinn í Árborg sagði upp samningi um milliinnheimtu við Intrum í ágúst sl. með sex mánaða uppsagnafresti. Um áramót skipti Intrum um nafn og heitir nú Motus þannig að Árborg semur nú við sama fyrirtæki um milliinnheimtu. Nýi samningurinn felur í sér verulega lækkun á innheimtukostnaði.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að tilboð Motus feli í sér lækkun innheimtukostnaðar krafna sem fara í milliinnheimtu. Lækkunin nemur frá 21% til 73%. Að auki munu fleiri kröfur en áður falla í lægri gjaldflokka.

Innheimtubréfum vegna fasteignagjalda verður fækkað og símhringingum einnig, og felur það að auki í sér lækkun kostnaðar fyrir viðskiptavini.

Fyrri grein1. apríl að kveldi kominn
Næsta greinÍslandsglíman í dag