Sveitarfélagið Árborg mun á næstunni skipta yfir í pappírspoka undir lífrænan úrgang, þar sem komið hefur í ljós að maíspokar henta ekki í jarðgerð.
Lífrænn úrgangur frá Árborg er í dag keyrður að mestu í GAJA, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi í Reykjavík. Þar er ekki hægt að taka við maíspokum undir úrganginn og þarf því að skipta yfir í pappírspoka.
Málið var rætt á fundi umhverfisnefndar Árborgar í vikunni og samþykkti nefndin að innleiða breytinguna sem fyrst og að hún verði komin til framkvæmda fyrir áramót.
Á fundinum fór nefndin einnig yfir staðsetningu á grenndarstöðvum og samþykkti að setja upp nýja grenndarstöð við Stað á Eyrarbakka, í kringum næstu mánaðamót.