Ríkissáttasemjari hefur lagt til að sveitarfélagið Árborg tryggi rekstur Sólheima í Grímsnesi til bráðabirgða, á meðan samningaviðræður standa yfir um framtíð stofnunarinnar.
Forstöðumenn Sólheima eru ósáttir við flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélagsins, og boðuðu fyrir skemmstu að Sólheimum yrði lokað eftir áramót.
Fulltrúar Árborgar og Sólheima eiga nú í viðræðum hjá sáttasemjara, og tjá sig ekki við fjölmiðla þar til niðurstaða liggur fyrir. Árborg tryggði rekstur stofnunarinnar út janúar, og ríkissáttasemjari lagði til á fundi vegna Sólheima í vikunni að reksturinn yrði tryggður þar til deilan væri til lykta leidd.