Eins og sunnlenska.is greindi frá í nóvember síðastliðnum lagði þáverandi meirihluti D-listans í bæjarstjórn Árborgar til að tæplega 1,5% álag yrði sett á hámarksútsvar í sveitarfélaginu árið 2024. Það var svo samþykkt með fjárhagsáætlun ársins 2024 í desember síðastliðnum.
Álagið aðgerð til tveggja ára
Fulltrúar D-listans samþykktu fjárhagsáætlunina en fulltrúar S- og B-lista sátu hjá, eins og fulltrúi Á-listans, sem nú er kominn í meirihluta bæjarstjórnar.
„Bæjarstjórn Árborgar gerir sér grein fyrir því að þær álögur og gjaldskrárhækkanir sem hér eru kynntar eru verulega íþyngjandi fyrir íbúa. Mikilvægt er því að hafa í huga að aðgerðir líkt og aukið álag á útsvar er aðeins hugsuð til tveggja ára,“ sagði í tilkynningu sem Fjóla St. Kristinsdóttir, þáverandi bæjarstjóri, sendi út fyrir hönd meirihlutans þegar fjárhagsáætlunin var kynnt.
Íbúar hvattir til að hafa breytingarnar í huga
Álagið á útsvar Árborgarabúa mun koma til greiðslu í uppgjöri þann 1. júní á næsta ári, á sama tíma og Skatturinn gerir upp ofgreidda eða vangreidda skatta vegna fyrra árs.
Sveitarfélagið vekur áherslu á þessu í tilkynningu á heimasíðu sinni í dag og eru íbúar hvattir til að hafa þessar breytingar í huga þegar þeir skipuleggja fjármál sín næsta árið.
Til þess að reikna út álagið geta íbúar margfaldað árslaun sín með tölunni 0,01474. Í tilkynningunni frá Árborg eru tekin nokkur dæmi um álagninguna; íbúi með 5 milljónir í árslaun þarf að greiða 73.700 krónur í álag, íbúi með 8 milljónir í árslaun 117.920 krónur og íbúi með 10 milljónir í árslaun 147.400 krónur, svo dæmi sé tekið.