Sveitarfélögin átta í Árnessýslu hafa hætt þeirri vinnu sem staðið hefur yfir við að kanna kosti og galla á sameiningu allra sveitarfélaganna í sýslunni.
Starfshópur frá sveitarfélögunum vann að verkefninu í samvinnu við ráðgjafa frá KPMG þar sem kostir og gallar sameiningar voru ræddir. Samhljómur var hjá fulltrúum sveitarfélaganna um að leggja ekki upp með kosningu um sameiningu í vetur meðal annars þar sem lítill áhugi virðist almennt fyrir verkefninu meðal íbúa og sveitarstjórnarmanna.
Þá hafa tekjur og umsvif sveitarfélaganna aukist á sama tíma, meðal annars með íbúafjölgun, og þegar staðan sé þannig þá sé hvati til sameiningar minni. Starfshópurinn lauk störfum án þess að skila formlegu áliti um mögulega sameiningu.
Niðurstaða starfshópsins var rædd í bæjarráði Árborgar í gær og í kjölfarið lýsti bæjarráð áhuga á því að ræða möguleika á sameiningu færri nærsveitarfélaga.
Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra, var valið að vinna málið áfram og hún sagði í samtali við sunnlenska.is að þar sem ekki verði af stórri sameiningu sé rétt að kanna grundvöllinn fyrir minni sameiningum.
„Sveitarfélagið Árborg mun leita til Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps og kanna hvort áhugi sé þar á bæ fyrir að skoða sameiningarmöguleika,“ segir Ásta.
Í skoðanakönnun sem gerð var árið 2014 vildu 72% Árborgarbúa skoða sameiningu sveitarfélaga. Flestir vildu sjá alla Árnessýslu sameinaða en af þeim sem völdu eitt sveitarfélag nefndu flestir Flóahrepp.