Knattspyrnufélag Árborgar hefur keppni í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu á heimavelli næstkomandi laugardag.
Liðið mætir þá Vængjum Júpíters í 8-liða úrslitum en leikið er heima og heiman. Leikurinn hefst kl. 12:00 á aðalvellinum á Selfossi. Seinni leikurinn verður á Fjölnisvellinum á þriðjudag.
Eins og á öllum leikjum Árborgar í sumar hefur verið frítt á völlinn í boði Bílverk BÁ. Svo verður einnig á laugardaginn, auk þess sem veitingar verða í boði og heppnir vallargestir geta unnið bíómiða í Selfossbíó.
Þar sem áhorfendur þurfa hvorki að borga aðgangseyri, eða í sjoppuna, skora Árborgarar á vallargesti að láta frjáls framlög rakna af hendi í söfnunarbauk sem verður á staðnum. Söfnunarfénu verður varið til að kaupa La-Z-Boy stól fyrir frístundaklúbbinn Kotið á Selfossi. Stóllinn kostar 90 þúsund krónur og hefja Árborgarar söfnunina með því að leggja til 30 þúsund krónur úr sektarsjóði félagsins.
„Við erum með sektarsjóð eins og önnur félög þar sem leikmenn þurfa að greiða litlar fjárhæðir fyrir ýmis glappaskot, eins og t.d. að mæta of seint á æfingar eða fá mynd af sér í blöðin. Þetta hefur skilað nokkrum þúsundköllum í sjóð,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
„Í sumar hefur mikill meistari, Eiríkur Sigmarsson, lagt mikinn metnað í að bæta umgjörð liðsins og leikmönnum liðsins langaði til þess að þakka honum fyrir það með því að hjálpa honum að safna fyrir stólnum. Eiríkur er forstöðumaður Kotsins, sem er frístundaklúbbur ætlaður fyrir grunnskólanemendur í 5. til 10. bekk sem eru með fatlanir,“ segir Guðjón.
„Tilgangur söfnunarinnar er að gefa þeim krökkum sem eru í hjólastól smá frí frá þeim stól og leyfa þeim að njóta smá tilbreytingar með því að setjast í lúxus LA–Z–BOY stól á meðan þau eru í Kotinu. Ég vona að stuðningsmenn okkar og aðrir vallargestir taki vel í þetta og láti sitt ekki eftir liggja á leiknum á laugardaginn,“ sagði Guðjón að lokum.