Arcanum hlaut fyrstu verðlaun

Fyrirtækið Arcanum á Ytri-Sólheimum í Mýrdal hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun Íslandsbanka, eitt þriggja fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Raunar hlaut Arcanum, sem sérhæfir sig í ferðum upp á Mýrdalsjökul og hálendið, fyrstu verðlaun að því er segir í tilkynningu frá bankanum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsbanki veitir verðlaunin samhliða ferðakaupstefnunni Iceland Trawel Workshop. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum í ferðaþjónustu og er þeim ætlað að vera hvatning til að efla og stuðla að nýsköpun og uppbyggingu hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Fjöldi umsókna barst í keppninni sem þykir merki um mikla grósku í íslenskri ferðaþjónustu.Valin voru þrjú fyrirtæki sem fengu að launum verðlaunagrip frá IcelandReps og peningaverðlaun frá Íslandsbanka sem mun nýtast þeim í áframhaldandi uppbyggingu og nýsköpun.

Arcanum hefur verið starfrækt um árabil í Mýrdalnum, einkanlega í ferðum á vélsleðum og jeppum. Fyrirtækið bætti nýlega við jöklagöngu og ísklifri en þær ferðir fara fram á Sólheimajökli.

„Við erum gríðarlega montin með þetta, og þetta er kannski viðurkenning á því að við stefnum í rétta átt með okkar þjónustu og stefnumótum í fyrirtækinu,“ segir Benedikt Bragason, einn eigenda fyrirtækisins. Hann og Andrína Guðrún Erlingsdóttir eiginkona hans stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma en hafa nú fengið Tómas Birgi Magnússon til liðs við sig í hóp eigenda.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinÞrír mótorhjólamenn slösuðust
Næsta greinKúnum hleypt út á Helluvaði