Arnaldur ráðinn í Eyrarbakkaprestakall

Sr. Arnaldur Bárðarson.

Biskup Íslands hefur staðfest ráðningu sr. Arnaldar Bárðarsonar í starf sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli frá 1. febrúar næstkomandi.

Arnaldur var eini umsækjandinn og kaus kjörnefnd Eyrarbakkaprestakalls hann til starfans.

Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Arnaldur ráðinn ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Arnaldur Bárðarson er fæddur 2. júní 1966 á Akureyri og lauk kandídatsprófi í guðfræði árið 1995. Hann var vígður til prests árið 1996 og starfaði síðan sem sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli og Ljósavatnsprestakalli og sem prestur við Glerárkirkju á Akureyri. Árin 2010 til 2017 var hann sóknarprestur í norsku kirkjunni. Frá því hann kom heim aftur hefur hann starfað við hótelrekstur í Hafnarfirði og verið afleysingarprestur í Breiðabólstaðar-, Bústaðar-, Þorlákshafnar- og Eyrarbakkaprestaköllum.

Eiginkona sr. Arnalds er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir áður prestur í norsku kirkjunni og menntunarfræðingur. Þau eiga fimm syni.

Fyrri greinMenntaverðlaun Suðurlands afhent í dag
Næsta greinEllefu HSK met sett um síðustu helgi