Selfyssingurinn Arnar Helgi Magnússon, hlaut í síðustu viku viðurkenningu úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði á bakkalárstigi af Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Ritgerð Arnars Helga ber heitið Ávinningur samstarfs ólíkra fagstétta – samstarfsverkefni barnaverndar og félagsmiðstöðvar. Leiðbeinandi var Oddný Sturludóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið. Í greinargerð dómnefndar segir að verðlaunin séu ætluð einstaklingum er ljúka námi með fyrstu einkunn, skila framúrskarandi lokaverkefni, hafa unnið óeigingjarnt starf sem fulltrúar nemenda í stjórn deildar og verið virk í félagslífi.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs veitti verðlaun og Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Menntavísindasvið hélt stutta tölu um Guðbjart Hannesson, gildi hans og nálgun í starfi.
Minningarsjóður Guðbjarts Hannessonar var stofnaður til minningar um Guðbjart sem var skólastjórnandi, alþingismaður og frumkvöðull í að tengja félags- og tómstundamenntun við aðra uppeldismenntun en hann var með þeim fyrstu hér á landi sem sóttu sér formlega menntun sem tómstunda- og frístundafræðingur.