Arnar Þórisson hefur verið ráðinn forstjóri Líflands frá og með 1. júlí næstkomandi.
Arnar hóf störf hjá Líflandi árið 2013 sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Hann er iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur að mennt og lauk M.Sc í iðnaðar- og rekstrarverkfræði árið 2011 við Háskólann í Álaborg. Árin 2011-2013 gegndi Arnar stöðu framleiðslustjóra hjá Plastprenti. Arnar er kvæntur Rannveigu Vilbergsdóttur og eiga þau fjögur börn.
Þórir Haraldsson sem gegnt hefur stöðu forstjóra félagsins í rúm tuttugu ár lætur af daglegum störfum en mun áfram sinna verkefnum fyrir félagið.
Lífland hefur jafnframt gengið frá ráðningum á tveimur nýjum framkvæmdastjórum, og taka þau bæði sæti í framkvæmdastjórn félagsins.
Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs og hefur þegar hafið störf. Ingibjörg hefur yfir 20 ára reynslu í sölu- og markaðsmálum og starfaði síðastliðin rúm 5 ár sem markaðsstjóri Samkaupa. Ingibjörg Ásta útskrifaðist sem viðskiptafræðingur úr Háskólanum í Reykjavík með B.Sc gráðu í alþjóðamarkaðsfræði árið 2002 og lauk síðan MBA námi úr sama skóla árið 2010.
Halldór Berg Sigfússon mun taka við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs 1.júlí nk. Hann hefur síðastliðin sex ár starfað sem fjármálastjóri samstæðu Greenwater. Halldór Berg er með MAcc gráðu í reikningshaldi og endurskoðun og MCF gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.
Í framkvæmdastjórn Líflands sitja einnig fyrir þau Rannveig Hrólfsdóttir sem gegnir stöðu mannauðs- og gæðastjóra ásamt Stefáni Má Símonarsyni, framkvæmdastjóra Nesbúeggja.
Lífland er markaðsdrifið framleiðslu- og þjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavina á landsvísu. Starfsemi fyrirtækisins lýtur að margþættri þjónustu og vörum tengdum landbúnaði, hestaíþróttum, dýrahaldi, matvælaiðnaði og útivist. Lífland starfrækir sex verslanir sem staðsettar eru í Reykjavík, Akureyri, Blönduósi, Borgarnesi, Hvolsvelli og Selfossi. Dótturfélög Líflands eru Lifland Agri í Noregi og Nesbúegg en einnig starfrækir félagið einu hveitimyllu landsins og markaðssetur undir vörumerkinu Kornax.