Heimildarmyndin Árnar þagna eftir Óskar Pál Sveinsson verður sýnd á Þingborg í Flóahreppi í kvöld klukkan 20:00. Að lokinni sýningu verður efnt til umræðna milli frambjóðenda til Alþingis og kjósenda í kjördæminu.
Árnar þagna fjallar um áhrif sjókvíaeldis á laxi á lífríki og afkomu bænda sem hafa byggt lífsafkomu sína á hlunnindum af sjálfbærum stangveiðum í margar kynslóðir.

Sú framtíð rann upp í Noregi í júní á þessu ári þegar Umhverfisstofnun Noregs fyrirskipaði lokun 33 af þekktustu laxveiðiám landsins vegna skaðans sem sjókvíaeldi á laxi og loftslagsbreytingar hafa valdið á villtum laxastofnum í Noregi. Á einu augnabliki hvarf stór hluti lifibrauðs fjölda samfélaga sem hefur byggt afkomu sína á hlunnindum af stangveiði í marga ættliði.
Í myndinni eru viðtöl við eigendur norskra laxáa, sem tekin voru nokkrum dögum eftir að fótunum var kippt undan tilveru þeirra, og fólk í sveitum Íslands um þá framtíð sem mögulega bíður þess og fjölskyldna þeirra ef ekki verður brugðist við.

Meðal gesta á sýningunni í kvöld er einn viðmælandanna í myndinni, Ann-Britt Bogen landeigandi við Gaula í Noregi, en hún er spennt að sjá viðbrögð Íslendinga við myndinni. Fulltrúar allra flokka sem bjóða fram til Alþingis hafa staðfest komu sína á sýninguna og munu taka þátt í umræðum að henni lokinni.
Árnar þagna verður sýnd í nóvember í öllum landshlutum í samvinnu við veiðifélög og náttúruverndarsamtök á hverjum stað og fer síðar í almenna sýningu í sjónvarpi. Sérstakar sýningar verða líka í Noregi.