Dragnótarbáturinn Arnar ÁR verður stopp í mánuð eftir að kveikt var í bátnum á mánudagsmorgun.
Eldur var kveiktur í svampdýnu í vinnslurými bátsins og brunnu meðal annars rafleiðslur.
Að sögn Ármanns Einarssonar, útgerðarstjóra Auðbjargar, verður gert við bátinn í Þorlákshöfn. Ármann telur að viðgerðin muni taka um það bil einn mánuð.
Auðbjörg gerir út þrjá báta og sagði Ármann að rólegt væri í vinnslunni þessa dagana. Humarvinnslan væri stopp en gert er ráð fyrir að hún hefjist aftur um miðjan ágúst.