Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Árna Bragason í embætti landgræðslustjóra til næstu fimm ára. Árni hefur frá árinu 2010 starfað sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð.
Valnefnd skipuð af ráðherra mat Árna hæfastan meðal umsækjenda til að gegna embætti landgræðslustjóra. Árni lauk doktorsgráðu í jurtaerfðafræði frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn með erfðafræði og lífeðlisfræði sem aukagreinar og B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Árni hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri.
Áður en Árni tók við stöðu forstjóra Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar starfaði hann hjá verkfræðistofunni Eflu. Þar á undan starfaði hann sem forstöðumaður náttúruverndar- og útvistarsviðs Umhverfisstofnunar, forstjóri Náttúruverndar ríkisins og sem forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá.
Að auki hefur Árni gegnt fjölmörgum nefndar- og trúnaðarstörfum á sviði náttúruverndar- og umhverfismála.
Árni er skipaður í embætti landgræðslustjóra frá 1. maí og tekur við starfinu af Sveini Runólfssyni sem lætur af störfum sökum aldurs.
Árni er kvæntur Önnu Vilborgu Einarsdóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn.