Selfyssingurinn Arnór Ingi Grétarsson er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á haustönn 2019. Alls voru það 48 nemendur sem brautskráðust frá FSu í gær.
Arnór Ingi útskrifaðist af tveimur stúdentslínum, viðskipta- og hagfræðilínu og alþjóðalínu. Hann hlaut viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu við brautskráninguna og margar viðurkenningar fyrir nám í einstökum námsgreinum; stærðfræði, íslensku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku auk þess sem hann fékk sérstaka viðurkenningu fyrir einstaka frammistöðu, alúð og áhuga í tungumálanámi.
Sigrún Elfa Ágústsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í stærðfræði og viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, dugnað og metnað í félagsvísindum. Marta María Bozovic Siljudóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í dönsku og viðurkenningu fyrir góðan árangur og dugnað í íþróttum og íþróttafræðum. Íris Hanna Rögnvaldsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í hjúkrunargreinum. Þuríður Ósk Ingimarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í dönsku. Kolbrún Katla Jónsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku og Eyþór Björnsson hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í vélvirkjagreinum.
Í hópi brautskráðra í gær voru tíu nemendur sem luku námi af sjúkraliðabraut, þar af tveir af sjúkraliðabrú. Einn lauk grunnnámi málmiðna, tveir nemendur luku námi á vélvirkjabraut og einn nemandi lauk námi á húsasmíðabraut. Þá brautskráðust 35 stúdentar, flestir af opinni línu, tuttugu talsins.
Hjörtur, Helga og Gísli heiðruð
Stjórn Hollvarðasamtaka Fsu heiðraði fráfarandi formann samtakanna, Hjört Þórarinsson, á athöfninni í gær en hann hefur lengi verið ötull talsmaður skólans. Hjörtur var formaður skólanefndar um langt skeið og stofnaði Hollvarðasamtökin ásamt fleirum á sínum tíma.
Tveir kennarar voru heiðraðir við starfslok á brautskráningu, þau Helga Jóhannesdóttir, textíl- og hönnunarkennari og Gísli Skúlason íslenskukennari. Þau hafa bæði starfað við skólann undanfarin 35 ár, en láta nú af störfum.