Landgræðsluverðlaunin voru veitt í dag við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti. Meðal verðlaunahafa voru Þjórsárskóli og Ársæll Hannesson á Stóra-Hálsi.
Landgræðsluverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Með verðlaununum vill Landgræðslan vekja athygli á því mikilvæga starfi sem áhugafólk vinnur um land allt.
Verðlaunin í árhlutu Ársæll Hannesson á Stóra-Hálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Hermann Herbertsson á Sigríðarstöðum í Þingeyjarsveit, Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir á Dýrfinnustöðum í Skagafirði, Sandgerðisbær og Þjórsárskóli.
Ársæll Hannesson hóf uppgræðslu á jörðinni Stóra-Hálsi um 1960. Hann stóð fyrir dreifingu áburðar og grasfræs með landgræðsluflugvélinni Páli Sveinssyni í Grafningnum frá árinu 1973, bæði á vegum sveitarfélagsins og svo á eigin vegum á útjörðina á Stóra- Hálsi, sem var illa leikin af uppblæstri frá gamalli tíð. Ársæll hóf þátttöku í verkefninu „Bændur græða landið“ árið 1994 og hefur verið virkur þátttakandi síðan. Hann hefur grætt upp fleiri kílómetra af háum og erfiðum rofabörðum í landi sínu sem er algjört þrekvirki því erfitt er að koma þar vélum að.
Áður en uppgræðslan hófst þurfti hann stundum að sá aftur í túnsléttur vegna þess að mold rann úr rofabörðunum með regnvatni úr hlíðunum. Uppgræðslan miðlar nú vatninu og bindur í jarðveginum og lækjarsytrur eru nú tærar sem áður voru jafnan mórauðar af jarðvegi í rigningu.
Haustið 2002 tók Þjórsárskóli í fóstur rofna skógartorfu í Hrossatungum í Þjórsárdal. Þá var jarðvegur að blása frá torfunni og gróður að eyðast. Í upphafi var heymoði dreift í rofsárið en síðan sáðu nemendur skólans grasfræi og melfræi í barðið. Næstu árin var hlúð að því á ýmsa vegu í árlegri landgræðsluferð skólans og Landgræðslunnar. Börnin hafa m.a. klippt víðigræðlinga og stungið niður og farið í Búrfellsskóg, safnað þar birkifræi og sáð í uppgræðslusvæðið í Hrossatungum. Nú er Skaftholtsfjall aðal landgræðslusvæði skólans. Þar er rofjaðar, moldir og melar sem þarfnast aðhlynningar. Þar hafa börnin dreift úr heyrúllum, stungið niður víðigræðlingum og sett upp áburðartilraun. Í haust var svæðið vandlega merkt sem landgræðslusvæði Þjórsárskóla.
Í samstarfi við Skógrækt ríkisins nýtir Þjórsárskóli þjóðskóginn í Þjórsárdal til útikennslu, þar sem markmið aðalnámskrár eru kennd á nýjan hátt og skógarvinna er eðlilegur hluti skólastarfsins. Skólastjóri, kennarar og annað starfsfólk skólans hafa tekið virkan þátt í þessum verkefnum. Þjórsárskóli er þátttakandi í Grænfánanum, sem er alþjóðleg viðurkenning sem Landvernd veitir grunnskólum og leikskólum landsins sem standa sig vel í umhverfismálum.
Aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Hafdís Gísladóttir, afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra.