Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður sett í dag á Hellu en þinginu lýkur á morgun með árshátíð félagsins.
Slysavarnafélagið Landsbjörg á rætur sínar að rekja aftur til fullveldisársins 1918 þegar Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað. Slysavarnafélagið Landsbjörg var stofnað 2. október 1999 en þá sameinuðust Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg, landssamband björgunarsveita.
Allt frá upphafi hafa sjálfboðaliðar félagsins skipt miklu máli í skipulagi almannavarna. Íslendingar eru reglulega minntir á mikilvægi þeirra. Á síðasta ári vörðu félagar Slysavarnafélagsins Landsbjargar þúsundum vinnustunda í ýmis verkefni tengdum viðbrögðum við eldgosinu á Fimmvörðurhálsi og í Eyjafjallajökli. Framlag þeirra verður seint fullþakkað. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra færir félaginu þakkir fyrir samstarfið og óskar félagsmönnum ánægulegara og gefandi landsþings, sem jafnframt mun örugglega marka enn eina vörðuna á leið félagsins til öruggara samfélags íbúum og ferðamönnum á Íslandi til heilla.
Sem fyrr segir verður þingið sett í dag en meðal dagskráratriða eru björgunarleikar sem fara fram á morgun, laugardag.