
Ársreikningar Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2024 hafa nú verið birtir. Niðurstaðan er jákvæð rekstrarniðurstaða A og B hluta upp á tæpan 1,6 milljarð króna.
Rekstarniðurstaða A hluta var jákvæð um 1.267 milljónir króna. Þessu fjármagni hefur þegar verið varið til uppbygginga innviða, niðurgreiðslu skulda og uppbyggingar þjónustu við bæjarbúa. Samkvæmt efnahagsreikningi nema heildareignir A og B hluta um rúlega 10 milljörðum króna. Bókfært eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 4,5 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins 59,47%.
Niðurstaðan fyrst og fremst hvatning
„Niðurstaða ársreikninga er bæjarstjórn fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu. Mikilvægasta velferðarverkefni á öllum tíma er að gæta að því að missa ekki tökin á rekstrinum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri.
„Í Ölfusi hefur verið byggt upp sterkt þjónustunet þar sem skólarnir og íþróttaaðstaðan eru meðal helstu flaggskipa þjónustunnar. Sveitarfélagið vinnur nú að því að nýta þá sterku stöðu sem birtist í ársreikningunum til að bæta þjónustu við bæjarbúa enn frekar og eftir atvikum að bjóða nýja íbúa velkomna,“ bætir Elliði við.
Skuldaviðmiðið snarlækkar
Skatttekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 2.460 milljónum árið 2023 í 2.727 milljónum árið 2024. Skýringin á þessum auknu tekjum liggur í því að íbúafjölgun hefur verið mikil á þessum tíma auk þess sem nýjum fasteignum, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði, hefur fjölgað hratt.
Þrátt fyrir að álagningahlutfall fasteigna hafi verið lækkað um 40% frá árinu 2018 halda fasteignagjöld áfram að skila auknum tekjum vegna fjölgun bæði atvinnuhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis. Árið 2023 skiluðu fasteignagjöld samtals 554 milljónum en árið 2024 skiluðu þau 604 milljónum.
Skuldaviðmið Sveitarfélagsins Ölfuss hefur lækkað undanfarin ár, þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Skuldaviðmiðið 2023 var 60,07%, árið 2024 fór það niður í 16,5%.