ART teymið fær jákvæðar undirtektir á alþjóðlegu málþingi

Í ágúst síðastliðnum var ART teyminu á Suðurlandi boðin þátttaka í alþjóðlegu málþingi í gagnreyndum þjálfunaraðferðum, rannsökuðum með góðum árangri, í félags- og tilfinningafærni.

ART (Agression Replacement Training) er vel afmörkuð og árangursrík aðferð til að draga úr erfiðri hegðun og/eða tilfinningavanda hjá börnum og ungmennum og getur auðveldað þeim að eiga betri samskipti og læra að þekkja sínar eigin tilfinningar. ART þjálfun hefur verið notuð með góðum árangri til að hjálpa börnum og ungmennum í vanda og foreldrum þeirra, auk þess sem þjálfunin er notuð víða um land sem forvörn fyrir börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi.

Málþingið var haldið á vegum PREPSEC International, Prepare for Evidence based Practice in Social Emotional Competence, í Danmörku dagana 23. – 27. ágúst sl.

Á málþinginu deildu sjö þjóðir reynslu sinni, nýjungum og rannsóknum varðandi ART þjálfun og skyldar aðferðir. Í flestum erindunum var megináherslan á meðferð fyrir börn í hegðunar- og/eða tilfinningavanda.

Erindið frá Íslandi var með megináherslu á forvörn sem styður við meðferð en ART þjálfun í skólum landsins hefur verið að gefa góða raun. Í erindinu var sýnt fram á hvernig hægt er að tengja ART efnið við aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi.

Margar þjóðir sýndu áhuga á að nota íslensku aðferðina og stefnt er að því að auka enn frekar samstarf milli þjóða í rannsóknum og þróun á ART og skyldum aðferðum.

Fyrri greinGóður sigur hjá Hamri
Næsta greinSúkkulaði fyrir sælkera