Ásahreppur í Rangárvallasýslu gerðist aðili að skipulags- og byggingarfulltrúaembætti uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps um nýliðin áramót.
Þetta var samþykkt á fundi hreppsnefndar Ásahrepps í síðustu viku. Embættið mun yfirtaka öll mál er varða skipulags- og byggingarmál Ásahrepps frá áramótum.
„Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu hafa verið með sameiginlegan skipulagsfulltrúa undanfarin ár. Það samstarf gekk vel og við vorum ánægð með það en á síðasta kjörtímabili varð vart við óánægju og óskaði Rangárþing ytra eftir því að samstarfinu yrði slitið. Því lauk 1. október síðastliðinn og í framhaldinu réðu Rangárþing ytra og Rangárþing eystra hvort sinn skipulagsfulltrúa. Þetta fannst okkur afturför og ákváðum því að horfa í vestur enda hefur verið góð reynsla af samstarfi sveitarfélaganna í Árnessýslu,“ sagði Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, í samtali við sunnlenska.is.
Ásahreppur greiðir vegna aðildarinnar 3,8 milljón króna eingreiðslu til embættisins ásamt rúmlega 700 þúsund króna greiðslu til Verkfræðiskrifstofu Suðurlands vegna skráningar í landupplýsingakerfið Granna. Með greiðslu þessari eignast Ásahreppur hlut í lausabúnaði embættisins. Framvegis greiðir hreppurinn svo mánaðarlegt framlag til embættisins sem er samtals um 4,3 milljónir króna á ári. Það er um það bil einni milljón króna lægra en hreppurinn greiddi í embættið í Rangárvallasýslu en greiðslan gæti hækkað samhliða vaxandi umfangi embættisins.
„Landfræðilega er þarna tækifæri fyrir okkur enda eru nágrannasveitarfélögin Flóahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur inni í þessu samstarfi. Sýslumörkin skipta engu máli þegar kemur að þessu. Vissulega eru vegalengdirnar meiri en mikið af vinnu þessu tengdu er unnið rafrænt og símleiðis. Við erum að veita íbúum okkar betri þjónustu, þarna eru fimm til sex starfsmenn og það er vel af embættinu látið hjá hinu opinbera. Við horfum mjög jákvætt á aukið samstarf við þessi sveitarfélög og það hafa allir gott af því að vera víðsýnir og horfa í kringum sig í samvinnu sveitarfélaganna,“ sagði Eydís að lokum.
Nýr skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins eru því Pétur Ingi Haraldsson og byggingarfulltrúi Helgi Kjartansson, en þeir hafa aðsetur á skrifstofu embættisins á Laugarvatni.