Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir 26 ára karlmanni sem grunaður er um að hafa kveikt í íbúð við Birkivelli 15 á Selfossi snemma á laugardagsmorgun.
Barnsmóðir og fyrrverandi sambýliskona mannsins býr í íbúðinni ásamt þriggja ára syni þeirra.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að fyrsta aðkoma á vettvang hafi bent til þess að um íkveikju væri að ræða. Maðurinn var handtekinn á laugardagsmorgun en neitaði sök við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar um daginn.
Fram kemur að um langa hríð hafi mikið gengið á í samskiptum kærða og fyrrverandi sambýliskonu hans. Lögreglan hefur til rannsóknar kærur á hendur manninum vegna líkamsárásar gegn sambýliskonunni auk þess sem hann hefur ítrekað rofið nálgunarbann gagnvart konunni. Einnig eru tilgreind nokkur tilvik um smáskilaboð í gegnum síma frá kærða til konunnar sem og hótanir í hennar garð. Samtals eru nú til rannsóknar hjá lögreglu tólf mál þar sem kærði hefur stöðu sakbornings.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að með hliðsjón af háttsemi mannsins að undanförnu telji lögregla að augljóst sé að kærði komi til með að halda áfram brotum sínum verði hann ekki látinn sæta gæsluvarðahaldi meðan málum hans sé ólokið í réttarkerfinu.
Þá telur lögreglustjóri sýnt að raunveruleg hætta sé á að maðurinn vinni konunni mein og að brotavilji hans og ásetningur til að valda konunni tjóni og miska sé skýr og einbeittur. Verði því ekki séð að nein önnur úrræði geti verndað hana fyrir árásum varnaraðila, eins og nú sé komið, nema að svipta hann frelsi sínu.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að fyrrverandi sambýliskona mannsins yfirgaf heimili sitt fyrr um nóttina í kjölfar þess að maðurinn setti sig í samband við hana, en barnið hafi dvalið hjá skyldfólki umrædda helgi. Framburður mannsins um ferðir hans umrædda nótt stangast á við framburð vitna og þá benda smáskilaboð í gegnum síma, sem maðurinn sendi vitni umrædda nótt áður en eldurinn kom upp, til þess að hann tengist málinu.