Mikil ásókn er í að fá leigt húsnæði á fjórðu hæð stjórnsýsluhússins að Suðurlandsvegi 1-3 á Hellu, segir Ágúst Sigurðarson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.
Að hans sögn er ætlunin að taka hæðina í notkun fljótlega. Orðið hafi breyting til batnaðar á rekstri félagsins sem á húsnæðið og eigendur þess hafa falið stjórn þess að ganga til framkvæmda og klára frágang efstu hæðarinnar.
Að sögn Ágústs á þar eftir að ganga frá salernum og stigagangi upp á hæðina. „Það fer svo eftir því hverjir koma þarna inn, hvernig og hvort því verði skipt niður, við sjáum til hvernig því verður háttað,“ segir hann.
Hann segir ásóknina í húsnæðið fyrst og fremst vera frá heimafólki með starfsemi á svæðinu. Gólfflötur hæðarinnar sem um ræðir er 400 fermetrar. „Það er heldur bjartara framundan,“ segir Ágúst, um reksturinn, sem var til langs tíma erfiður, og lagðist þungt á eigendur þess, og hafði áhrif á gang sveitarstjórnamála.