Bæjarráð Árborgar tók fyrir tvær umsóknir á síðasta fundi sínum, um vilyrði fyrir lóðum í nágrenni nýju Ölfusárbrúarinnar, sitt hvoru megin við Ölfusá.
Bæjarráð tók ekki afstöðu til umsóknanna en lét færa til bókar að með tilkomu nýrrar brúar yfir Ölfusá verði til ein verðmætustu gatnamót landsins beggja vegna brúar og mikilvægt sé að horft sé til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra fyrirtækja sem úthlutað verður lóðum við þessi gatnamót.
Hent frá borði ef þau ætla ekkert að gera
„Þetta er mjög verðmætt landsvæði sem í felast mikil gæði. Þegar slíkum gæðum er úthlutað, sem almenningur á, er sjálfsagt mál að fyrirtækin sem úthlutað verður gæðunum geri okkur grein fyrir því hvað þau ætli að gera á móti fyrir samfélagið. Það er, hvernig þau hafa hugsað sér að iðka sínu samfélagslegu ábyrgð á borði,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður bæjarráðs, í samtali við sunnlenska.is. „Ef þau ætla ekkert að gera þá verður þeim bara hent frá samningaborðinu,“ bætti Tómas Ellert við.
Annars vegar sótti Svarið ehf um vilyrði fyrir lóð sunnan við nýja hringtorgið á gatnamótum Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar, undir upplýsinga- og þjónustumiðstöð fyrir Árborg, með hraðhleðslu fyrir rafbíla, sjálfhreinsandi salernum og fleiru. Hins vegar sóttu Skel fjárfestingafélag og Orkan IS um lóð austan við Selfoss undir starfsemi Orkunnar og Löðurs.
Skipulagsmálum ekki lokið
Bæjarráð fól skipulagsdeild að vinna málið frekar. Liggja þarf fyrir hvenær gatnagerð gæti verið tilbúin og hugsanlegt vilyrði þarf að samræmast aðalskipulagi. Lóðin sem Skel og Orkan sótti um er í eigu Árborgar en innan Flóahrepps og ekki liggur fyrir deiliskipulag að svæðinu.
Bæjarráð beinir þeim tilmælum til forsvarsmanna fyrirtækja sem hafa hugsað sér að koma upp starfsemi við þessi gatnamót að lýsa því í greinargerð með umsóknum sínum hvernig fyrirtækin hafi hugsað sér að styðja við og styrkja samfélagið í skiptum fyrir slík gæði sem að felast í nýju gatnamótunum.