Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, hyggst taka þátt í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg og sækist eftir því að leiða lista flokksins.
Í tilkynningu frá Ástu segir að hún hafi starfað sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili og áður sem bæjaritari og hafi yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi sveitarfélagsins og rekstri þess.
„Ég hef tekið þátt í að rétta fjárhag sveitarfélagsins af og hef áhuga á að vinna áfram að því að gera sveitarfélagið að góðum búsetukosti,“ segir Ásta sem er lögfræðingur að mennt og hefur auk fyrrgreindra starfa hjá sveitarfélaginu unnið sem fulltrúi Sýslumannsins á Selfossi og sem settur dómari við Héraðsdóm Suðurlands.