Selfyssingum sem telja sig verða vara við tregðu á frárennsli á húsum sínum er bent á að hafa samband við Sveitarfélagið Árborg svo hægt sé að bregðast við ef stíflur hafa myndast í stofnlögnum.
Eins og sunnlenska.is hefur greint frá brotnaði stofnlögn í fráveitu í Rauðholti og jarðvegi skolaði inn í hana með þeim afleiðingum að holrými myndaðist undir götunni. Það uppgötvaðist síðan þegar hola myndaðist í malbikið í götunni í byrjun febrúar.
Lögnin var skoðuð og mynduð og í framhaldinu var ákveðið að endurnýja stofninn á um 115 metra kafla undir götunni og stendur sú framkvæmd út mánuðinn.
Jón Tryggvi Guðmundsson, tækni- og veitustjóri Árborgar, segir að kostnaðurinn við viðgerðina liggi ekki fyrir en ljóst sé að hann hlaupi á mörgum milljónum.
Í ágúst árið 2011 opnaðist botnlaus gjá undir Víðivöllum í næsta nágrenni við Rauðholtið. Jón Tryggvi segir þessi tvö tilvik mjög ólík en bætir við að ástand lagna í eldri hverfum bæjarins sé víða bágborið.
„Í Víðivöllum mátti vel greina sprungu á yfirborði götu og gangstéttar í nágrenni holunnar og var sprungan talin orsök þess að holrúm myndaðist í götunni. Í Rauðholti eru aðstæður öðruvísi þar sem ekki er hægt að greina jarðsig eða sprungu á yfirborði. Talið er að jarðvegi hafi skolað inn um brotið steinrör og allar líkur eru á því að rörið hafi brotnað af völdum jarðskjálfta,“ sagði Jón Tryggvi í samtali við sunnlenska.is.
Eftir Suðurlandsskjálftann 2008 voru allar fráveitulagnir á Selfossi myndaðar, nema heimæðar.
„Samkvæmt myndunum af fráveitukerfinu er ástandið ekki ósvipað víða í kerfinu. Aldur lagna í fráveitukerfinu er á misjöfnum aldri og ástand lagna í eldri hverfum bæjarins er víða bágborið. Líftími lagna sem lagðar eru í dag eru 50-60 ár, eldri lagnir eru viðkvæmari þar sem gæðin í lagnaefninu eru ekki þau sömu og þau sem lögð eru í dag,“ segir Jón Tryggvi og bætir við í þessu samhengi að fráveitulagnir innan lóða séu á ábyrgð húseiganda.
Jón Tryggvi ítrekar að telji fólk sig verða vart við tregðu á frárennsli frá húsum sínum, er íbúum bent á að hafa samband við sveitarfélagið svo hægt sé að bregðast við ef stíflur hafa myndast í stofnlögnum.