Lögreglumaður frá lögreglunni á Suðurlandi fór í dag ásamt áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar í eftirlitsflug meðfram Suðurlandsvegi, frá Selfossi og austur fyrir Vík. Umferð gekk almennt vel en hún var farin að þyngjast til vesturs um kl. 15:00.
Þá var líka flogið um sunnanvert hálendið. Lent var á nokkrum stöðum og rætt við vélsleðamenn og ástand þeirra kannað. Skemmst er frá því að segja að ástand sleða og fólks var með besta móti og almennt var jákvæðni og ánægja með eftirlitið, bæði frá ferðamönnum og þeim sem eftirlitinu sinntu.
Eftirlit sem þetta er ekki nýtt af nálinni en undanfarin ár hafa embættin sem nú heyra undir lögreglustjórann á Suðurlandi sinnt því í samvinnu við Lanhelgisgæsluna og hafa einstaka reglubundin æfingarflug áhafna á þyrlum gæslunnar verið nýtt með þessum hætti. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að mikil ánægja hafi verið með þetta samstarf.