Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barnamálaráðherra og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, ætlar að segja af sér sem ráðherra. Hún hyggst sitja áfram sem þingmaður.
Hún greindi frá þessu í viðtali á RÚV í kvöld.
Ásthildur átti í ástarsambandi við 15 ára dreng þegar hún var sjálf 22 ára og eignaðist með honum barn.
RÚV greindi frá þessu í kvöld en piltinum kynntist hún þegar hún leiddi kristilegt unglingastarf. Barnsfaðir hennar sakar hana um tálmun en Ásthildur Lóa hafnar þeim ásökunum í viðtali sem hún veitti RÚV eftir að frétt birtist og í viðtalinu kom fram að hún myndi segja af sér.
Ásthildur Lóa segir að málið snúist ekki aðeins um „kaldar staðreyndir“ heldur ýmislegt mannlegt. Hún hafi ekki höndlað aðstæður á sínum tíma. „Ég er ekki sama manneskjan og ég var þegar ég var 22 ára gömul,“ segir hún.