Atlantsolía lækkaði í gær verð á eldsneyti á bensínstöð sinni á Selfossi til samræmis við verðstefnu sína í Kaplakrika, Sprengisandi og Akureyri og býður nú upp á ódýrasta eldsneytisverð sitt þar, án allra afslátta.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Atlantsolía sprengir upp verðið á eldsneytismarkaði. Með opnun svokallaðrar Bensínsprengju í Kaplakrika árið 2019 varð Atlantsolía fyrst olíufélaga til að bjóða öllum viðskiptavinum upp á sama lága eldsneytisverðið óháð öllum fríðindakerfum, meðlimagjöldum eða öðrum afsláttarkjörum.
Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og í kjölfarið lækkaði Atlantsolía verðið á bensínstöðinni við Sprengisand. Árið 2020 opnaði Atlantsolía svo Bensínsprengju við Baldursnes á Akureyri og nú er komið að Suðurlandi.
„Bensínsprengjan okkar breytti landslaginu á eldsneytismarkaðnum, fyrst þegar við breyttum verðstefnunni í Kaplakrika og svo í kjölfarið á Sprengisandi,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu. „Atlantsolía hefur verið leiðandi í samkeppni á eldsneytismarkaðinum, neytendum til hagsbóta. Í ljósi frábærra undirtekta viðskiptavina við okkar lægsta verði á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi er rökrétt skref að bjóða upp á sama verð á Suðurlandi. Þannig svörum við enn á ný kalli neytenda um lægra eldsneytisverð á landsbyggðinni.“
Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öllum öðrum stöðvum Atlantsolíu en í Kaplakrika, á Sprengisandi, Baldursnesi og Selfossi munu allir fá sama lága eldsneytisverðið, án afsláttar.
Atlantsolía rekur 25 sjálfsafgreiðslustöðvar, átján á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og sjö á landsbyggðinni.