Áttþúsundasti Árborgarinn heiðraður

Drengur sem kom í heiminn síðastliðinn laugardag, þann 20. september, er áttþúsundasti íbúi Sveitarfélagsins Árborgar.

Drengurinn, sem er sonur þeirra Thelmu Karenar Ottósdóttur og Helga Ófeigssonar, býr í Baugstjörninni á Selfossi og fékk hann heimsókn fulltrúa bæjaryfirvalda í gær.

Það var Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar sem afhenti þessum nýjasta íbúa bæjarins og foreldrum hans, virðingarvott í tilefni þessa.

Íbúum Árborgar fjölgaði um eittþúsund á tímabilinu 2004 til 2007 en sjöþúsundasti Árborgarinn kom í heiminn í janúar 2006. Frá árinu 2008 hefur íbúafjöldinn staðið nokkuð í stað og verið að meðaltali 7.800 íbúar. Þann 1. janúar síðastliðinn voru íbúar Árborgar 7.889 talsins.

Fyrri greinGóður árangur á Sprengimóti Óðins
Næsta greinÞrjú sveitarfélög á Suðurlandi taka þátt