Harður árekstur varð síðdegis í dag á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Hótel Rangá, þegar bifreið var ekið aftan á aðra bifreið.
Sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands óku fram á áreksturinn og voru með þeim fyrstu á vettvang.
Átta manns voru í bílunum og voru allir fluttir á HSU á Selfossi til frekari aðhlynningar. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að talið sé að meiðsli fólksins séu minniháttar en bílarnir voru báðir mikið skemmdir og fluttir af staðnum með dráttarbíl.
Bílvelta og hraðakstur
Annríki var hjá lögreglunni á Suðurlandi í dag, bílvelta varð á Biskupstungabraut sunnan við Reykholt. Ökumaðurinn var einn á ferð og var fluttur til skoðunar á HSU á Selfossi.
Þá voru nokkrir teknir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var erlendur ferðamaður á yfir 150 km/klst hraða á Suðurstrandarvegi austan við Hlíðarvatn. Hann gekkst við broti sínu, greiddi háa sekt og var sviptur ökuréttindum.