Átta ökumenn undir áhrifum í miðri viku

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frá því á mánudag hefur lögreglan á Suðurlandi kært tíu ökumenn fyrir of hraðan akstur og fimm hafa verið stöðvaðir og kærðir fyrir að aka án tilskilinna ökuréttinda.

Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um vímuakstur og þrír fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Í einu tilfelli fundust meint fíkniefni. Einn ökumaður er grunaður um ölvunarakstur.

Lögreglan hefur fylgst með snjalltækjanotkun ökumanna í vikunni og hafa tveir verið kærðir fyrir að nota símann án handfrjáls búnaðar. Tveir voru kærðir fyrir að vera ekki með ljósabúnað í lögmætu ástandi og einn ökumaður var kærður fyrir að vera með hélaðar rúður við akstur.

Þrjú umferðaróhöpp eru skráð en öll voru þau án teljandi meiðsla á fólki.

Síðustu daga hafa verið settar frekari öxulþungatakmarkanir á vegi og hefur umferðardeild lögreglunnar á Suðurlandi verið með virkt eftirlit með þungatakmörkum. Þegar þetta er ritað hafa tveir atvinnubílsstjórar verið kærðir fyrir brot á reglum um stærð og þyngd ökutækja.

Fyrri greinÓmissandi jólapartý á Sviðinu
Næsta grein„Man ekki eftir annarri eins opnun“