Átta tillögur í nafnakosningu

Átta nöfn verða á kjörseðlinum þegar kosið verður um, mögulega, nýtt nafn á Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Auglýst var eftir tillögum og af þeim 56 sem skiluðu inn lögðu flestir til óbreytt heiti á sveitarfélaginu.

Alls bárust 56 gildar tillögur um samtals átta nöfn. Þau eru Eystri-byggð, Eystri-hreppur, Vörðubyggð, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Þjórsárbakkar, Þjórsárbyggð, Þjórsárhreppur og Þjórsársveit.

Á fundi sveitarstjórnar í vikunni var samþykkt að kjósa á milli þessara átta nafna, að fengnu samþykki Örnefnanefndar. Örnefnanefnd hefur erindi sveitarstjórnar nú til umfjöllunar og þegar niðurstaðan liggur fyrir verður listi með þeim nöfnum sem samþykkt verða afhentu kjörstjórn sveitarfélagsins og henni falið að undirbúa nafnakosningu.

Einnig var samþykkt að halda opinn kynningarfund um kosningaferlið, sem fyrst eftir að niðurstaða Örnefnanefndar liggur fyrir.

Fyrri greinGuðmundur Garðar til Ægis
Næsta greinGröfutækni bauð lægst í strandstíginn