Átta umferðarslys á síðustu dögum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi en frá því um miðja síðustu viku eru átta umferðarslys skráð í dagbókina.

Sjö þeirra voru án teljandi slysa á fólki en í eystri hluta embættisins varð fjórhjólaslys og var ökumaður fjórhjólsins var fluttur til aðhlynningar á slysadeild.

Alls voru 24 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 137 km/klst hraða á Suðurlandsvegi austan við Hvolsvöll.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um vímuakstur, tveir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þrír ökumenn voru stöðvaðir án þess að hafa réttindi til aksturs og tveir ökumenn atvinnutækja voru stöðvaðir fyrir brot á reglum um stærð og þyngd ökutækja. Þá hafði lögreglan afskipti af ökumönnum með laus börn í bifreiðum sem og af ökumönnum sem voru með of marga farþega.

Auk þessarar upptalningar þá kom eitt líkamsárásarmál á borð lögreglu, auk eins fíkniefnamáls þar sem viðkomandi hafði í vörslu sinni ólögleg efni.

Fyrri greinKlóra sér enn í kollinum vegna bilunar
Næsta greinMetþátttaka í Fríska Sólheimahlaupinu