Átta umferðarslys um helgina

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skemmtanahald fór vel fram í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi um helgina. Bjórhátíð Ölverks var haldin í Hveragerði og Regnbogahátíð Mýrdælinga var haldin í Vík í Mýrdal og fóru hátíðirnar vel fram að sögn lögreglu.

Alls eru bókuð 106 verkefni sem lögreglumenn sinntu nú um helgina.

Þrír voru teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis um helgina og einn fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Þá voru fjórtán ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða og var sá sem hraðast mældist á 138 km/klst.

Lögregla var átta sinnum kölluð á vettvang vegna umferðarslysa en ekki urðu alvarleg meiðsl á fólki í þeim. Í tveimur þessara tilfella var ekið á sauðfé.

Fyrri greinVeittist að lögreglumönnum
Næsta greinNý Selfossbrú yfir Ölfusá – bruðl eða skynsemi?