„Ég vissi að þetta gæti alveg gerst hratt, þar sem fæðingin hjá elsta barninu mínu gekk líka mjög hratt, en ég átti ekki alveg von á því að þetta myndi gerast svona hratt.“
Þetta segir Karen Óskarsdóttir sem fæddi barn í sjúkrabíl á Skeiðavegi síðastliðið miðvikudagskvöld. Karen og eiginmaður hennar, Jón Marteinn Finnbogason, búa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og það tekur þau sirka fjörutíu mínútur að keyra á Selfoss.
Systirin tók á móti
Systir Karenar, Rakel Óskarsdóttir, er ljósmóðir og það stóð til að hún tæki á móti barninu. „Systir mín hringdi í mig rétt fyrir tíu um kvöldið og spurði hvort hún geti sofið rólega um nóttina. Ég var búin að vera með einhverja samdrætti yfir daginn en ég bjóst ekkert við að vera fara af stað. Ég sagði henni að það væri ekkert að gerast og skellti á hana,“ segir Karen.
Settur dagur var 7. ágúst en Karen átti þó ekki von á barninu alveg strax. Fyrir eiga þau Jón Marteinn fimm og þriggja ára stelpur.
„Tuttugu mínútum síðar hringdi ég í hana og sagði henni að verkirnir væru að versna og að við ætluðum að leggja af stað á Selfoss. Hún býr sjálf á Hellu þannig að hún lagði af stað líka. Þegar við erum að leggja af stað, um klukkan hálf ellefu, finn ég að verkirnir eru harðna og það verður alltaf styttra á milli,“ segir Karen.
Sjúkrabíllinn pikkaði Rakel upp
„Ég hringdi í systur mína á leiðinni og sagði henni að stoppa á Skeiðavegamótunum því þetta væri að gerast ansi hratt og að ég væri farin að rembast. Hún segir okkur þá að hringja á sjúkrabíl, sem við gerðum. Við náðum ekki sjálf niður á Skeiðavegmót heldur bað starfsmaður hjá Neyðarlínunni okkur að stöðva bílinn. Við stoppuðum bílinn við Skálholtsafleggjarann og biðum þar eftir sjúkrabílnum sem tók systur mína upp í á Skeiðavegamótunum,“ segir Karen.
Í góðum höndum
Ákveðið var að klára fæðinguna í sjúkrabílnum við Skálholtsafleggjarann þar sem barnið var við það að fæðast. „Sex mínútur fyrir miðnætti var hún fædd. Allt gekk vel og allt fór vel. Ég var í góðum höndum með tvær ljósmæður við hlið mér og þrjá sjúkraflutningamenn. Mér leið ekkert illa, leið bara eins og ég væri á spítalanum,“ segir Karen en auk systur hennar kom ljósmóðir af HSU með öðrum sjúkrabíl sem kom stuttu seinna.
Karen segir að það hafi ekki verið mikið pláss í sjúkrabílnum til að athafna sig. „En þetta gekk allt svo hratt yfir að maður gat ekki mikið verið að spá í því að fara í aðra stellingu. Þetta gerðist svo hratt – svo var þetta bara búið,“ segir Karen sem var í sirka 40 mínútur inni í sjúkrabílnum áður en þriðja stúlka þeirra hjóna kom í heiminn, 50 sm og 13 merkur.
Viðstödd allar fæðingarnar
Þess má geta að Rakel hefur verið viðstödd allar fæðingar Karenar. „Hún var ekki búin með ljósmóðurnámið þegar elsta stelpan fæddist en hún var viðstödd og tók á móti næstelstu stelpunni og svo núna yngstu.“
Aðspurð segir Karen að maðurinn hennar hafi verið rólegur í öllu ferlinu. „Hann var pollrólegur og studdi mig í gegnum þetta allt saman. Þegar allt fólkið var komið þá vorum við í öruggum höndum,“ segir Karen að lokum.