Hermann Ólafsson hjá teiknistofunni Landhönnun á Selfossi var hluti af teymi arkitektastofunnar Arkís sem átti vinningstillögu að endurgerð Laugavegar í Reykjavík, frá Skólavörðustíg að Snorrbraut.
Haldin var hönnunarkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um tillögur að endurgerð Laugavegs og Óðinstorgs og voru vinningstillögur kynntar í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir stuttu.
„Ég hef unnið mikið með Arkís í gegnum tíðina og verið þar innanbúðarmaður s.l. tvö ár, samhliða rekstri teiknistofu minnar, Landhönnunar á Selfossi,“ segir Hermann. Landhönnun er fyrirtæki sem hefur verið starfrækt á Selfossi frá 4. febrúar árið 2003 og fagnaði því 12 ára afmæli fyrr á mánuðinum. „Við unnum að þessu verkefni frá því í október. Ásamt Landhönnun voru þrír arkitektar frá Arkís, lýsingarhönnuður og skipulagsverkfræðingur frá Verkís og ferlihönnuður frá Aðgengi sem vann að aðgengismálum,“ bætir Hermann við.
Í áliti dómnefndar segir að tillagan sýni góða og sannfærandi útfærslu, þar sem efnisval er gott og hugmyndir vel útfærðar. Þar segir jafnframt að hugmyndin tengi sögu svæðisins inn í hönnunina. Þá eru hugmyndir um lýsingu í götu og rýmum vel leystar. Götutorg og lausn á bílastæðum fyrir mismunandi árstíma þóttu áhugaverð og tillögur um götugögn og gróðurbeð þóttu sannfærandi.
Hermann segir að tillögurnar í hönnunarkeppninni hafi á ákveðinn hátt þótt áþekkar. Þar sem þeirra tillaga hafi skorið sig frá öðrum var t.a.m. í svokölluðu götutorgum sem minnst er á í áliti dómnefndar. „Við einblíndum á svæðin á milli gatnamóta með götutorgin og höfum bílastæði, hjólastatív og gróður í einu belti norðanmegin, sem er sólarmegin yfir sumartímann. Þannig má „lána“ sum bílastæði undir ýmis konar starfsemi fyrir fyrirtækin á svæðinu,“ segir Hermann. Í öðrum tillögum voru bílastæði gjarnan höfð sunnanmegin.
Annað sem dómnefndin minntist á var lýsingin í götunni. „Við einblíndum ekki á götuna sjálfa heldur einnig að varpa daufri birtu á húsin. Þannig mun fólk skynja betur allt göturýmið og fá skemmtilegri upplifun af þessum fjölbreyttu húsum við götuna,“ segir Hermann. Einnig er gert ráð fyrir öflugum ljósastaurum í götutorgum sem mætti nota til að hengja á skreytingar við hvers konar tilefni.
Þetta er ekki fyrsta verkefnið sem Hermann vinnur að í miðbæ Reykjavíkur. Hann hefur þegar komið að því að hanna endurgerð á Hverfisgötu og Frakkastíg. Hann segir þó tenginguna litla á milli hönnunar á fyrrnefndum götum og vinningstillöguna að endurgerð Laugavegar. „Hugmyndin var að Laugavegurinn myndi skera sig frá og aðgreina sig frá hinum götunum,“ segir Hermann.
Ekki er á þessari stundu vitað hvenær vinna við þessa endurgerð muni hefjast og engin áætluð verklok. Hermann telur þó líklegt að fyrst verðið ráðist í endurgerð Óðinstorgs, þar sem það verk sé líklega tæknilega einfaldara.