Úthafsróðrarbáturinn Auður lenti á Höfn í Hornafirði í kvöld eftir að hafa lagt upp frá Eiði í Færeyjum síðastliðinn sunnudag.
Einn af áhafnarmeðlimum Auðar er Selfyssingurinn Einar Örn Sigurdórsson en auk hans voru í áhöfninni þeir Eyþór Eðvarsson, Kjartan Jakob Hauksson skipstjóri, Svanur Wilcox, Hálfdán Freyr Örnólfsson og Ingvar Ágúst Þórisson. Þeir fjórir síðastnefndu reru síðasta legginn til Íslands en sjóleiðin milli Færeyja og Íslands er ríflega 240 sjómílur.
Ferð Auðar hófst í Kristjánssandi í Noregi þann 17. maí 2013 í fyrra. Fyrst reru þeir frá Kristjánssandi til Orkneyja þar sem vont veður gerði þeim erfitt fyrir. Biðu þeir í mánuð á Orkneyjum áður en þeir héldu áfram til Færeyja. Vegna óhagstæðra veðurskilyrða þurfti báturinn að hafa vetrardvöl í Færeyjum, en í síðustu viku héldu þeir áfram ferð sinni.
Róðurinn er óstuddur og án fylgdarbáta. Sögulegum heimildum ber saman um að þetta er í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem báti er róið alla leiðina frá meginlandi Evrópu til Íslands án þess að notast við segl eða mótor. Í fyrra setti áhöfnin á Auði tvö úthafsróðramet þegar hún varð fyrst til að róa frá Noregi til Orkneyja og frá Orkneyjum til Færeyja.
Róið var milli landa samkvæmt reglum Ocean Rowing Society og Guinness World Records.