„Ég hef miklar áhyggjur af fíkniefnamálum í okkar samfélagi og hvað það virðst verða auðvelt hjá börnum og unglingum að verða sér út um þessi efni.
Ég frétti af einum 14 ára, sem sagði að það væri miklu auðveldara að fá gras á Selfossi til að reykja en að kaupa eina kippu af bjór í vínbúðinni,“ segir Helgi Haraldsson, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.
Hann var einn þeirra sem tjáðu sig um þessi mál á opnum fundi sveitarfélagsins um löggæslu- og forvarnarmál í síðustu viku. „Þetta er fyrst og fremst foreldravandamál, þessi mál þarf að ræða heima fyrir og allt samfélagið þarf að vakna og taka á málinu. Ég veit að lögreglan gerir allt sem hún getur en þeir eru fáliðaðir og komst einfaldlega ekki yfir öll þau verkefni, sem þarf að sinna,“ segir Helgi ennfremur.
Neysla hefur aukist
„Við erum að fást við málaflokkinn eins og við mögulega getum, sannarlega vildum við hafa meiri mannskap til að takast á við þetta því við vitum að neysla hefur aukist. Ég er reyndar ekki sammála því að það séu allir að reykja hass, það er einfaldlega ekki svoleiðis, rannsóknir hérna segja okkur að kannski tvö til fjögur prósent af árgangi í grunnskólum og Fjölbrautaskólanum eru í þessari neyslu. Í 100 til 110 manna árgangi er það ekki stór hópur en engu að síður er það áhyggjuefni,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi þegar leitað var viðbragða hjá honum.