Tæplega 400 manns mættu á íbúafund sem boðað var til á Hvolsvelli í dag sem boðað var til eftir að ákveðið var að skerða opnunartíma heilsugæslunnar á Hvolsvelli.
Á frummælendaskrá voru Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS og íbúi, og Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSu. Fundarstjóri var Óskar Magnússon.
Herdís fræddi fundargesti um ástæður fyrir færri opnunardögum á Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli en sú lokun er tilraun til að bæta frekar heimaþjónustu í Rangárþingi. Fyrirhugað er að halda þessu til streitu fram á vor og kanna þá hvernig til hefur tekist.
Eftir að frummælendur höfðu lokið máli var orðið laust og margir tóku til máls, bæði með spurningar og áskoranir en ásamt Herdísi sátu Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga, og Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, fyrir svörum.
Sveitarstjórnarfólki var tíðrætt um lélega upplýsingaveitu og erfiðleika í samskiptum við forstjóra og eins og aðrir íbúar lýstu þeir furðu sinni yfir fækkun á opnunardögum þegar íbúum fjölgar sem og fjöldi ferðamanna sem streymir gegnum Rangárvallasýslu eykst stöðugt. Einnig var mikið rætt um þjónustu heilsugæslunnar utan dagvinnutíma.
Í frétt á heimasíðu Rangárþings eystra segir að saga Bjarna Böðvarssonar í Þinghól hafi kannski varpað skýrasta ljósi á stöðu mála en þar kom fram að það væri auðveldara fyrir veika kú að fá læknaþjónustu í heimabyggð utan hefðbundins tíma en mannfólkið og uppskar hann dynjandi lófatak í lok frásagnar sinnar.
Áður en Herdís yfirgaf fundinn afhenti sveitarstjóri henni undirskriftalista með nöfnum 652 einstaklinga sem óska eftir að skerðing á opnunartímum heilsugæslunnar á Hvolsvelli verði tekin til baka.