Auglýst eftir sveitarstjóra í Ásahreppi

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fyrsta fundi sínum í gær að auglýsa eftir sveitarstjóra. Egill Sigurðsson á Berustöðum var kjörinn oddviti.

Eins og áður var óhlutbundin kosning í Ásahreppi í sveitarstjórnarkosningunum í maí. Þar fékk Egill flest atkvæði aðalmanna inn í hreppsnefndina, 71 talsins, en Eydís Indriðadóttir, fráfarandi oddviti og sveitarstjóri í Laufási fékk 66 atkvæði.

Við oddvitakjörið á fundinum í gær fékk Egill þrjú atkvæði og Eydís tvö. Nanna Jónsdóttir á Miðhól var kjörin varaoddviti með þremur atkvæðum.

Eydís hefur verið oddviti og sveitarstjóri Ásahrepps undanfarin tvö kjörtímabil en hreppsnefndin samþykkti á fundinum í gær að fela Agli umboð til að ganga frá starfslokum hennar. Í kjölfarið var samþykkt að auglýsa eftir sveitarstjóra í 70 prósent starfshlutfall.

Fyrri greinLeitinni ekki hætt
Næsta greinHættir skólaakstri eftir 41 ár undir stýri