Nýlega fékk Grunnskólinn í Hveragerði styrk til að vinna að spennandi Comeniusarverkefni ásamt fimm skólum í Evrópu.
Samstarfsskólarnir eru frá Englandi, Frakklandi, Noregi og tveir skólar frá Írlandi og mun verkefnið standa yfir næstu tvö árin.
Það snýst í örstuttu máli um að auka umhverfisvitund nemenda, sem hentar vel með þeirri vinnu sem nú þegar er farin af stað í tengslum við Grænfánann, sem skólinn flaggaði fyrir stuttu. Comenius er skólastarfshluti Menntaáætlunar Evrópusambandsins og miðar að því að koma á gæðastarfi í skólum og auka Evrópuvitund í menntun.
Tvö verkefni eru þegar hafin og fleiri bætast við á næsta ári. Nemendur í 5. bekk fengu bréf frá samstarfsskólanum í Noregi og hafa þegar skrifað þeim til baka.
Einnig áttu nokkrir nemendur í 5. bekk bein samskipti við nemendur í enska skólanum í gegnum Skype. Það heppnaðist gríðarlega vel og stefnt er að því að fleiri nemendur muni gera slíkt hið sama í janúar.
Fljótlega á nýju ári verður kynning á verkefninu í skólanum fyrir alla nemendur skólans, foreldra og áhugasama bæjarbúa. Í janúar bætast svo fleiri verkefni við, t.d. verkefni tengt rusli og endurvinnslu, en tveir kennarar Grunnskólans í Hveragerði fóru nýlega til Englands og skoðuðu þar endurvinnslusvæði, ásamt nemendum enska skólans.
Ensku nemendurnir unnu í kjölfarið verkefni tengt því sem þeir sáu þar, skv. kjörorðunum: Reduce, Reuse; Recycle og munu nemendur í Grunnskólanum í Hveragerði vinna svipað verkefni.