Aukafjárveiting vegna skólabyggingar

Framkvæmda- og veitustjórn Sveitarfélagsins Árborgar hefur óskað eftir 26 milljónum í aukafjárveitingu vegna viðbyggingar við Sunnulækjarskóla á yfirstandandi ári.

Er þetta talin forsenda þess að hægt verði að taka fyrsta áfanga nýrrar viðbyggingar í notkun strax næsta haust. Nemendafjöldi í Sunnulækjarskóla hefur vaxið jafnt og þétt á sl. árum og er nú orðin brýn þörf á að stækka skólann. Áætlanir hafa verið á þann veg að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2015 og að framkvæmdum verði lokið haustið 2016.

Í viðbyggingunni er gert ráð fyrir sex kennslurýmum, mötuneytisaðstöðu fyrir nemendur, skólavistun, auk inngangs og tengiganga. Samhliða framkvæmdum í fyrsta áfanga verður eldhús skólans stækkað auk þess sem gerðar verða breytingar á staðsetningu húsvarðar.

Fyrri greinSpurt eftir leiguhúsnæði á Eyrarbakka
Næsta greinMargir þreyta sveinsprófið