Aukið eftirlit með skólplosun

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands mun auka eftirlit með Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands en grunur leikur á að fyrirtækið hafi áður losað skólpvatn út í náttúruna.

Starfsmenn fyrirtækisins voru gripnir glóðvolgir í síðustu viku þar sem þeir dældu skólpvökva úr tankbíl út í móa á vatnsverndarsvæði Þingvalla í Kárastaðalandi.

Í hádegisfréttum RÚV kom fram að starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins gruni að þetta verklag hafi áður viðgengist hjá fyrirtækinu. Eftirlit með fyrirtækinu verður aukið nú og því gert skylt að skila inn mánaðarlegum upplýsingum um tæmingu, vinnustaði og fleira.

Neysluvatn fyrir sumarbústaði í nágrenninu er enn ódrykkjarhæft og sumarhúsaeigendum er ráðlagt að sjóða vatn eða flytja hreint vatn með sér. Þessi tilmæli eru enn í gildi. Rannsókn á vatninu er hins vegar ekki lokið, og ekki ljóst hvort niðurstaðan sanni beint orsakasamhengi milli losunar á skólpvatninu og mengunarinnar.

Fyrri greinSamfylkingin eyddi mestu í kosningabaráttunni
Næsta greinFramleiknum flýtt