Aukin jarðhitavirkni hefur mælst undir Þjóðvegi 1 í Hveradalabrekku, við Skíðaskálann í Hveradölum. Vegagerðin vinnur að rannsóknum á svæðinu en í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að vegfarendum sé engin hætta búin.
Vegagerðin fékk tilkynningu um aukna jarðhitavirkni á svæðinu í gær og fór stoðdeild Vegagerðarinnar strax á staðinn til að gera athuganir og ganga úr skugga um að engin hætta væri á ferðum.
Yfirborð vegarins var skoðað og reyndist hitinn ekki óeðlilega hár. Hiti neðst í vegfláum sunnan megin reyndist hitinn 86 gráður rétt undir yfirborði. Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar og verður fram haldið næstu daga. Nýttar hafa verið jarðsjár og hitamyndavélar sem sýna að hitinn liggur í sprungu undir veginum.
Vegagerðin hefur verið í sambandi við ON sem hefur kortlagt yfirborðsvirkni á svæðinu. Einnig er Vegagerðin í samstarfi við ÍSOR sem þekkir vel til og hefur kortlagt sprungur á svæðinu. Svo virðist vera sem aukin hitavirkni á þessum stað hafi verið að þróast yfir langan tíma, eða í allmarga mánuði.
Vel verður fylgst með þróuninni næstu daga. Burður vegarins verður mældur, hitamyndavélar settar upp svo og hitamælar í veginn. Jarðsjárgögn hafa verið send utan til greiningar. Útbúin verður vöktunaráætlun til að meta þróun og breytingu á svæðinu.
Lögreglan á Suðurlandi hefur verið upplýst um málið. Vaktstöð Vegagerðarinnar hefur auga með vefmyndavélum. Ekki er talin hætta á ferðum fyrir vegfarendur en þeir eru þó beðnir um að stöðva ekki bíla sína á þessu svæði.