Meirihlutinn í sveitarstjórn Bláskógabyggðar felldi á síðasta fundi sínum tillögu minnihlutans um að stofnaður verði vinnuhópur til að skoða framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans Álfaborgar í Reykholti.
Minnihlutinn vildi að vinnuhópurinn myndi kanna hvort þörf væri á nýbyggingu fyrir leikskólann og þá stærð og staðsetningu og kostnaðaráætlun. Tillögunni var fylgt úr hlaði með bókun þar sem meirihlutinn segir minnihlutann ítrekað hafa komið í veg fyrir að farið verði í skoðun á húsnæðismálum leikskólans.
„Það er í raun með öllu óskiljanlegt að ekki megi skoða þessi mál og þannig hefja undirbúning að því að koma leikskólanum Álfaborg í húsnæði sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til leikskóla í dag,“ segir í bókun minnihlutans sem telur málið löngu tímabært.
Drífa Kristjánsdóttir, oddviti, sagði í samtali við sunnlenska.is að undanfarin ár hafi sveitarfélagið, hægt og bítandi, verið í aðhaldsaðgerðum til að koma fjárhag þess í betra horf og að staðan lagist á hverju ári.
„Við teljum ekki tímabært að vera að velta fyrir okkur byggingu nýs húsnæðis fyrir leikskólann. Hann er í ágætu húsnæði, þótt það sé gamalt og hýsir vel þau börn sem njóta leikskólaþjónustu. Við höfum séð til þess að húsnæðið hefur fengið þær lagfæringar sem eftirlitsaðilar og starfsfólk hefur farið fram á, leikvöllurinn hefur fengið umtalsverðar bætur og aðstaðan er því ágæt eins og hún er,“ segir Drífa og bætir við að það myndi setja fjárhag sveitarfélagsins í allt aðra stöðu ef fjárfest yrði í nýbyggingu um starfsemi sem nú er í viðunandi umhverfi.
„Ég tók dæmi um leikskólann Ós í Reykjavík sem er mjög eftirsóttur leikskóli en hann er starfræktur í miklu þrengra, eldra og óhentugra húsi en við erum með í Reykholti. Innra starf í Álfaborg er mjög gott, starfsfólk og foreldrar frábær og það er mikils virði. Aukin skuldsetning sveitarfélagsins er ekki valkostur eins og staðan er næstu árin,“ sagði Drífa ennfremur.