Í Morgunblaðinu í dag birtist grein þar sem fjallað er um þær skemmdir á íslenskri náttúru sem utanvegaakstur leiðir af sér.
Í tilkynningu sem Ferðaklúbburinn 4×4 sendi frá sér í morgun minnir klúbburin á að þeir ökumenn sem lítilsvirða landið með þessu athæfi, spilla alvarlega fyrir málstað þeirra sem viljum ferðast um Ísland með ábyrgum hætti.
Ferðaklúbburinn 4×4 bendir á að stikun leiða er ein áhrifaríkasta aðferðin til að beina ferðamönnum á rétta leið og forða því að ökumenn freistist til að aka utan slóða. Sjálfboðaliðar á vegum klúbbsins hafa því um árabil stikað hundruð kílómetra af slóðum og einnig unnið að GPS-merkingum slóða í samstarfi við Landmælingar Íslands. Þannig vill klúbburinn leggja sitt af mörkum til að sporna gegn utanvegaakstri.
Haustið 2011 setti klúbburinn GPS-grunn sinn af þessum slóðum inn á vef sinn til að leiðbeina ökumönnum um að aka aðeins þá slóða sem eru
viðurkenndir til aksturs.
Ferðaklúbburinn 4×4 hefur ávallt tekið fullan þátt í öllu því samstarfi sem hefur verið í boði vegna vegamála í óbyggðum Íslands. Því miður hefur klúbbnum orðið lítið ágengt í því að fá opinbera aðila til samstarfs um þessi baráttumál sín.
Klúbburinn heitir á yfirvöld vegamála að leggja stikunarverkefni klúbbsins lið og jafnframt leggja aukið fé til vegabóta á hálendisvegum þar sem þúsundir manna aka um á hverju ári.
Stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 vill nota tækifærið til að minna yfirvöld á að klúbburinn er ávallt boðinn og búinn til samstarfs um aðferðir og leiðir við að bæta umgengni um hálendi Íslands. Jafnframt hvetur stjórn klúbbsins félagsmenn sína enn og aftur til að berjast gegn ólöglegum utanvegaakstri og heitir á þá að tilkynna ávallt slíkt athæfi umsvifalaust til lögreglu.